Færsluflokkur: Bloggar
6.1.2012 | 12:58
Ættarmót að Goðalandi í Fljótshlíð helgina 6. - 8. júlí 2012
Kristín, Sigurbjörg, Hraundís og nyðjar
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.4.2011 | 14:13
Ættarmót 17. - 19. júní 2011
Ættarmótið 2011 verður haldið að Brúarlundi í gömlu Landssveit helgina 17. - 19. júní nk. Vegna hátíðarhalda í húsinu getum við ekki fengið full afnot af húsinu fyrr en eftir kvöldmat þann 17. en við megum mæta fyrr og að tjalda.
Dagskrá verður með hefðbundnu sniði, kaffisamsæti á laugardagseftirmiðdegi þar sem allir leggja eitthvað á borðið og svo grillað saman um kvöldið.
í nefndinni þetta árið eru börn Júlíönnu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.6.2010 | 17:43
Ættarmót Lækjartúnsættar 1979-2011
Vignir Sigurjónsson
1979. Það mun hafa verið í Bolabás á Þingvöllum laugardaginn 30. júní og sunnudaginn 1. júlí 1979 að fyrsta ættarmót Lækjartúnssystkina "hinna eldri" var haldið í kulda, roki og trekk. En suðaustanátt var og rigning, verulega kalt og hráslagalegt. Þar munu 6 systkini, makar og börn hafa mætt. Sennilega milli 20 og 25 manns.
1980. Haldið laugardaginn 14. júní í Galtalæk við leiki og ærsl. Heim var haldið um Rangárvelli með viðkomu í Hraunteig sem er eyja í Rangá. Gott veður og nokkuð vel mætt.
1981. Haldið um Jónsmessuna eða sunnudaginn 21. júní, að Litla Fljóti og Haukadal í Biskupstungum. Veðrið gott að öðru leyti en því að það gekk á með glæpaskúrum og þrumum og eldingum um tíma. Farið var að Geysi og í Haukadalsskóg og Brúarhlöð. Nokkuð vel mætt.
1982. Haldið sunnudaginn 20. júní í Galtalæk og auðvitað í frábæru veðri. Ljónsstaðabræður sátu fastir í bíl sínum í Blautukvísl við Sultartanga og fengu þeir að njóta fjallaloftsins þar fram eftir degi. Þeim bar bjargað af hópi vaskra manna úr ættinni undir stjórn Sveins í Lækjartúni.
1983. Haldið sunnudaginn 19. júní við Stóru Dímon á Markarfljótsaurum í fádæma sól og blíðu. Farið var í kapphlaup upp á Dímon. Gleymst hefur að skrá þann sem fyrstur fór.
1984. Haldið sunnudaginn 24. júní. Átti að vera í Réttarnesi á Landi en þar var austan bræla og rigning og ÆTTIN fór um víðan völl. Einhverjir fóru í Réttarnes, aðrir til Grindavíkur um Krísuvíkur- og Ísólfsskálaveg á L 260 og restin eitthvað annað. Allir komu heim um síðir.
1985. Haldið laugardaginn 22. júní í Galtalæk í hlýju veðri en roki er leið á dag. Mýflugan var ekki mjög vinsæl og hefur sennilega ekki angrað mannskapinn í þetta sinn. Heim var farið um Rangárvelli.
1986. Haldið laugardaginn 21. júní að Voðmúlastöðum í allgóðu veðri eftir myndum að dæma. Nokkur fjöldi fólks mætti og átti þar góða stund saman.
1987. Haldið við Stöng í Þjorsárdal í afar góðu veðri og góðri mætingu, bæði af fólki og sérstaklega af flugu sem sótti mjög í félagsskapinn. (Dagsetningu vantar).
1988. Sunnudaginn 12. júní hélt Fjóla uppá 50 ára afmælið sitt í Tryggvaskála í fögru veðri sem endranær og bauð þangað vinum og vandamönnum til veislu. Sunnudaginn 3. júlí var gengið að Gullfossi úr Tungufellsdal og hann skoðaður. Svo var dvalið við Brúarhlöð í afar fögru veðri. Þar bauð Fjóla Sveini bróður sínum síðustu pylsuna á myndrænan hátt??
1989. Þriðjudaginn 23. maí átti Tyrfingur Tyrfingsson 60 ára afmæli. Hann hélt veislu í Skíðaskálanum í Hveradölum og bauð þangað vinum og vandamönnum. Tyrfingi og Rósmarie var svo haldin mikil veisla hjá Guðmundu í Lækjartúni. Aðrar skráðar heimildir um ættarmót það árið eru ekki finnanlegar og því sennilegt að þar hafi verið haldið ættarmót.
1990. Haldið sunnudaginn 24. júní á Litlalandi í Austur-Landeyjum í góðu veðri og með góðri mætingu. Sullað og róið á Hólmalænu við gamla brúarstæðið, farið á hestbak á hestum frá Voðmúlastöðum og fleira sér til gamans gert.
1991. Haldið sunnudaginn 16. júní í Lækjartúni í austan golu og hlýju veðri ef marka má myndir. Góð mæting.
1992. Haldið sunnudaginn 21. júní í Galtalæk í fögru veðri. Aðstaða í stóru tjaldi. Keppt var í pokahlaupi og reiptogi. Því miður er ekki vitað hverjir unnu í þeirri viðureign. Mættir 66 af 103.
1993. Haldið helgina 19.-20. júní í Galtalæk í góðu veðri og mikilli flugu. Mættir voru 47 manns.
1994. Haldið sunnudaginn 3. júlí í Lækjartúni í fögru veðri við leiki og spjall. 47 manns mættu, þar á meðal Guðrún Sveinsdóttir frá Kanada.
1995. Var haldið stórmót í Gunnarshólma í Austur-Landeyjum helgina 24.-25. júní. Mótið var til minningar um hjónin Þórdísi Þorsteinsdóttur og Tyrfing Tyrfingsson frá Ártúnum á Rangárvöllum. Mjög vel mætt. Helgina 29.-30. júní var svo haldið ættarmót í Galtalæk í mjög góðu veðri. 37 sálir og 1 hundur mættu á svæðið.
1996. Haldið sunnudaginn 23. júní í Lækjartúni þetta árvissa ágæta ættarmót í allgóðu veðri, suðrænni átt og skúrum og nokkrum fjölda fólks eða 61.
Um haustið hélt unga fólkið sitt ættarmót í Karlakórsheimilinu á Selfossi sem var þeim til sóma. Okkur gömlu brýnunum var boðið til hátíðarinnar. Höfðum við gaman af. (mætti endurtaka).
1997. Haldið helgina 24.-25. maí í Hrauneyjum í kaldri veröld enda snjór í gjótum og giljum. 54 mættu. Vissulega notalegt að vera á hóteli og vakna við söng lóunnar. Á þessu ári tóku nokkrir flugnavinir sig saman og hittust við Drátt 5-6. júlí. 28 mættu.
1998. Haldið helgina 8.-10. maí í Hrauneyjum og var nú í hlýrra umhverfi en í fyrra. Þrjú afmæli; Guðbjörg sjötug, Sigurbjörg 39 og Gestur Már 2ja ára. Mættir voru 67. Flugnavinafélagið mætti við Drátt 3.-5. júní í ákjósanlegu flugna veðri " logni og mikilli rigningu" reyndar svo mikilli að elstu menn mundu ekki annað eins. En fólk lét smá votviðri ekki aftra sér því 28 gegnblautir og hraktir flugnavinir mættu á svæðið.
1999. Haldið helgina 30. apríl -2. maí í Hrauneyjum. Fagurt veður en kalt enda snjór á jörð. 52 mættu. Og flugnavinir létu ekki deigan síga enda búnir að gleyma vosbúðinni frá í fyrra og mættu galvaskir 26. júní við Drátt. En bara 9 mættu. Það voru hugaðir afkomendur Sæbjargar og Fjólu.
2000. Haldið 12.-14. maí í Hrauneyjum. Nú var hlýrra veður í tæru fjallaloftinu. 47 mættu. Enn mættu flugnavinir við Drátt 29 júlí og nú vorum við orðin viss um að ekki væri nokkur fluga helgina fyrir Verslunarmannahelgi og nýttist þessi rannsókn síðar, í annarri ætt sem átti eftir að mæta fjölmörg sumur í Galtalæk. Nú bættist við einn afkomandi Sveins og Jórunnar í hóp hugaðra, auk Fjólu og Sæbjargar, en það var hún Guðrún Lára sem tók hann Jón Sæmundsson með sér, sér til halds og trausts. Þannig að nú mættu 13 flugnavinir á svæðið. Síðan þá hefur ekki frést af flugnavinum og er það miður því þetta var bara ansi góður félagsskapur.
2001. Haldið helgina 13.-15. júlí að Heimalandi undir Vestur-Eyjafjöllum. Í mjög góðu veðri og nokkru fjölmenni. Farið var í Paradísarhelli og víðar. Samtals mættu 81.
2002. Haldið helgina 5-7. júlí á Heimalandi. Stemmingin var góð og veðrið, jú það skánaði er leið á helgina, já ekki orð um það meira. 87 mættu á staðinn.
2003. Haldið helgina 21-22. júní á Heimalandi. Veðurlýsing; veðrið með ágætum, svolítill strekkingur, smá dropar, svolítil sól og fer batnandi. Við þessi verðurskilyrði mættu 58.
2004. Haldið 25. -27. júní að Heimalandi. Veðrið upp og ofan, rok, rigning en stytti upp um síðir. 69 mættu á svæðið.
2005. Haldið 18-19. júní á Heimalandi í sól og 19. stiga hita, hvað viljið þið hafa það betra? Eyfellingar héldu sína þjóðhátíð 17. júní. Enda mættu á laugardag og sunnudag 78 sálir.
2006. Haldið 7-9. júlí í 6 sinn á Heimalandi í sól og hita uppá 23 gráður. Enda fengu sumir víðáttubrjálæði í hitanum og hlupu yfir Hofsá þar sem hún var beiðust og upp hlíðina vestan Drífandi og austur eftir fjallsbrúninni þar sem hann fellur fram af brúninni og nutu þess að horfa niður á okkur sem heima vourm. Við hin sem vorum betur haldin lögðum leið okkar að Drífanda og Míganda neðan frá. Þessa góða veðurs nutu 71.
2007. Haldið 22.-24. júní á Goðalandi í Fljótshlíð enda höfðu sumir séð Hlíðina með augum Gunnars Hámundarsonar að undanförnu og þótt hún fögur. Mjög gott veður, sól 12-14 stiga hiti en hífandi norðan rok og landið fýkur brt. 84 bókstaflega fuku á svæðið og sumir á móti rokinu.
2008. Haldið 20. -22. júní í Þykkvabæ í sól og sunnanvindi. Á svæðið mættu 83.
2009. Haldið helgina 19.-21. júní í Þykvabæ. Veðrið stundum verið betra, strekkings vindur og stefnir í rigninu. En hvað með það, stór hópur fólks stormaði á Stórhól, hæsta fjall í Þykkvabæ og komu aftur eftir mikla hrakninga " af kröftum þrotin og niðurbrotin" eins og segir í stórgóðum Stórhólsbrag. 71 stórhuga afkomandi þeirra Tyrfings og Kristínar og áhangendur mættu til leiks á þetta stórgóða þrítugasta ættarmót Lækjartúnsættar.
2010. Haldið föstudag, laugardag og sunnudag 25. - 27. júní í bílaverkstæðinu á Ljónsstöðum og túninu austan þess. Logn var og hlítt veður en smá rigning og öskufall frá Eyjafjallajökli sem barst inn á land með stýfri austanátt sem blés vestur með ströndinni, 20 m á Stórhöfða, og höfum við ekki lent í öskufalli fyrr á ættarmótum. Fólk hafði sem fyrr nóg fyrir stafni við leiki, spjall, söng og síðan var grillað á kvöldin og farið mis "snemma" að sofa í sólbjartri sumarnóttinni. Kaffi og meðlæti að hætti ættarinnar á laugardag að vanda. Vel var mætt sem fyrr því 88 manns mættu.
Bloggar | Breytt 2.12.2011 kl. 09:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.5.2010 | 17:47
Ættarmót 2010
Komið þið öll blessuð og sæl
Um það bil þrír áratugir eru síðan Lækjartúnssystkini byrjuðu að halda ættarmót. Bent skal á að vegna öskufall undir Eyjafjöllum hefur verið ákveðið að flytja ættarmótið að Ljónsstöðum í ár helgina 25. 27. júní 2010 og því rétt að taka þessa helgi frá.
Hlökkum til að sjá sem flesta endilega látið boðin ganga .
Kveðjur frá Ljónsstöðum
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.11.2009 | 08:41
Stórhólsbragur
Landið var flatt og fjallið bratt,
svo frægð þess hratt upp spratt.
Fólk tók að langa hólinn að ganga,
huga tók fanga ferðin stranga.
Þá fyrst var farið fólk varð marið,
fremur skarið og veðurbarið.
Af kröftum þrotin og niðurbrotin,
er við blöstu Kotin og kartöfluslotin.
Komst fólkið heim úr heljunum þeim,
með slitna reim af skónum tveim.
Ekkert slór og sigurinn stór,
oft sagt yfir bjór að þangað ég fór.
höf: Stórhólsfari
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.5.2009 | 14:43
Lækjartúnsættarmót 19.-21. júní 2009
Hið árlega ættarmót verður haldið í íþróttahúsinu í Þykkvabæ helgina 19. - 21. júní nk. Aðstaðan þar er öll til fyrirmyndar, snyrtilegt hús, góð tjaldstæði með rafmagni, gott leiksvæði með skemmtilegum leiktækjum og svo er örstutt í fjöruna. Sjá nánar: http://www.rangarthingytra.is/sidur/tjaldst.htm
Við fáum húsið á föstudegi og höfum það alla helgina.
Sameiginlegt kaffihlaðborð verður á laugardeginum samkvæmt venju og grillað um kvöldið.
Kostnaður er eftirfarandi:
Leiga á húsi frá föstudegi til sunnudags: kr. 42.000.- sem deilist niður á heildarfjölda gesta.
Eldhúsgjald: kr. 150.- á mann ca. 12 ára og eldri.
Tjaldsvæði: kr. 800.- á mann og sólarhring 16 ára og eldri.
Sameiginleg innkaup: ca. kr. 100.- á mann 12 ára og eldri.
Hægt er að gista inni í herbergjum í eigin svefnpoka og dynur eru á staðnum líka.
(Dæmi: Hjón með tvö börn undir 12 ára aldri í 2 nætur greiða kr. 3.200.- og svo fastagjaldið sem deilist niður á alla og ef 70manns mæta eru það 600kall á mann )
Keypt verða sameiginleg grillkol, grillolía, kaffi, pappadiskar og fleira.
Ættin hlakka víst til að hittast og er að sjálfsögðu pantað sól og bliðu.
Sjáumst hress í júní
Ákveðið var að systkinabörnin skiptist á að undirbúa mótið og farið verði eftir aldursröð systkinanna. Að þessu sinni eiga börn hennar Guðrunar að sjá um mótið. Í fyrra voru það Sveinsbörn. Hver er þá næst??
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.10.2008 | 20:16
Nýjar myndir - athugasemd
Ég setti inn nýjar myndir sem Vignir sendi mér frá ættarmótinu okkar í júní sl. Hann gaf öllum myndunum nafn og vill koma eftirfarandi athugasemd á framfæri vegna myndar sem nefnd er "Höfuðbólið og hjáleigan" og sýnir tvo húsbíla, annars vegar bíl Jóns og Ernu og hins vegar bíl Steina og Sigurbjargar.
Vignir skrifaði: Það er ekki verið að gera lítið úr Fordinum hans Steina og Sigurbjargar,heldur er ástæðan þessi : Þann 25.Júlí 1980 Kl.8 að morni lögðum við Fjóla af stað til móts við Óla og Guðrúnu sem gistu við Grjótá á Kjalvegji ásamt föðurbróður Óla,Ólafi Jónssyni úr Vestmannaeyjum.Förinni var heitið í Vatnsdalinn.Gott veður hafði verið í nokkurn tíma en nú voru blikur á loftií og farið að rigna og hvessa er við hittumst um 10 leitið.Óli og Guðrún voru á Ford Bronko og fellihýsi aftan í sem þau sváfu í en Ólafur Jónson svaf í sínu litla tjaldi.Við Fjóla vorum á Volkswagen rúbrauði innréttuðum sem húsbíll.Ólafur Jónsson var afbragðs ferðafélagi og gamansamur.Er við mættum á svæðið var hann að troða ,,hjáleigunni"ofaní poka,en hann kallaði fellihýsi frænda sýns höfuðbólið og tjaldið sitt hjáleiguna,þanig er nafnið til komið.En við héldum ferðini áfram í aftaka roki rigningu í Hvítárnes.á Hveravelli og síðla dags áð við Sandá í batnandi veðri og þar gist.
kv. Guðrún Lára
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.5.2008 | 14:13
Nýjar myndir
Jæja, nú er ég búin að setja inn fullt af misjafnlega gömlum myndum af ættarmótunum okkar. Þær elstu eru frá 1983 og þær yngstu frá 2001.
kv. Guðrún Lára
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.5.2008 | 11:52
Samantekt á ættarmótum
Hér er smá samantekt á því hvar ættarmótin okkar hafa verið haldin í gegnum tíðina.
Ár | Staður | |
1983 | Við Stóra Dímon | |
1984 | Brúarhlöð | |
1985 | Í Tungudal við Gullfoss | |
1986 | Á Voðmúlastöðum | |
1987 | Í Þjórsárdal | |
? | Í Lækjartúni | |
1990 | Á Litla landi | |
1991 | Lækjartúni | |
1992 | Í Galtalæk | |
1993 | Í Galtalæk | |
1994 | Í Lækjartúni | |
1995 | Í Gunnarshólma - stórfjölskyldan | |
1996 | Í Lækjartúni | |
1997 | Í Hrauneyjum | |
1998 | Í Hrauneyjum | |
1999 | Í Hrauneyjum | |
2000 | Í Hrauneyjum | |
2001 | Á Heimalandi | |
2002 | Á Heimalandi | |
2003 | Á Heimalandi | |
2004 | Á Heimalandi | |
2005 | Á Heimalandi | |
2006 | Á Heimalandi | |
2007 | Á Goðalandi | |
2008 | Í Þykkvabæ | |
2009 | Í Þykkvabæ |
Bloggar | Breytt 23.6.2009 kl. 20:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.5.2008 | 11:00
100 ára afmæli Kristjáns Jónssonar
Ég er búin að setja inn nokkrar myndir úr afmælinu hans Kristjáns frænda. Svo er ég að vinna í því að skanna inn gamlar ættarmótsmyndir og set þær inn hér fljótlega.
kv. Guðrún Lára
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)